Eskifjörður

 

logo1.jpg (3764 bytes)

Eskifjörður er fjörður í Suður-Múlasýslu sem gengur inn úr Reyðarfirði norð-vestanverðum. Meðfram Eskifirði eru brattar hlíðar, en inn af honum gengur stuttur og fremur þröngur dalur. Við norðanverðan Eskifjörð er samnefndur kaupstaður. Eskifjörður varð löggiltur verslunarstaður árið 1786. Uppgangur varð mikill á Eskifirði eftir að síldveiðar Norðmanna hófust fyrir Austurlandi upp úr 1870. Íshús var reist 1895 og útgerð vélbáta hófst 1905. Sýslumaður Suður-Múlasýslu situr hér og varð Eskifjörður sjálfstætt hreppsfélag árið 1906, og kaupstaður árið 1974. Kvennaskóli tók til starfa á Eskifirði árið 1875, annar í röðinni á Íslandi, og fyrsta fríkirkjan á Íslandi var byggð þar árið 1884. Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi var byggð á Eskifirði árið 1911. Eins og fram kemur að ofan er sjávarútvegur aðalatvinnuvegur Eskfirðinga. Frystihús staðarins sker sig úr hópi annarra frystihúsa á þann hátt að málverk eftir hinn katalónska málara Baltazar prýðir einn vegg þess.
Fjallið Hólmatindur gnæfir yfir fjörðinn, 985 metra hátt, og er það stolt og prýði fjarðarmanna sem segjast finna jákvæða strauma frá því. Það er þó ein "dökk hlið" á þessu stolti fjarðarbúa, en hún er sú að frá september til apríl dregur fjallið úr sólskinsstundum á Eskifirði.Árið 1998 sameinuðust sveitarfélögin Eskifjörður, Norðfjörður og Reyðarfjörður í eitt sameiginlegt sveitarfélag sem nefnist Fjarðabyggð.

Til baka English page
Yfirlitsmynd frá Eskifirði
Íbúafjöldi á staðnum 1025 (01.03 ´99)
Aðalalatvinnuvegir Sjávarútvegur (54%)
og þjónusta (21%)
Íbúar í Fjarðabyggð 3300 (01.03.´99)
Áhugaverðir staðir
  • Helgustaðanáma er í tíu mínútna akstursfjarlægð frá Eskifirði og er hún ein þekktasta silfurbergsnáma í víðri veröld.
  • Sjóminjasafn Austurlands hefur aðsetur sitt á Eskifirði og er það staðsett í Gömlu búð, húsi sem var reist árið 1816. Margir áhugaverðir hlutir þar sýna tengsl Íslendinga við hafið.